Fimmtudaginn 28. desember kl. 15, á milli jóla og nýars, mun Sól Hansdóttir, fatahönnuður og einn þátttakenda í haustsýningu Hafnarborgar, Landslag fyrir útvalda, flytja gjörning í tengslum við verk sitt á sýningunni, Eggið: Röð rannsókna um eðli tilverunnar.
Í gjörningnum er tekist á við spurninguna um hænuna og eggið og hugmyndina um orsök, uppruna og eilífa endurtekningu, líkt kemur fram í þessari ævafornu þversögn. Þá verða mörk raunveruleikans könnuð með því að setja á svið þrjá hliðstæða en ólíka raunveruleika. Þannig er sett spurningarmerki við hinn ríkjandi veruleika sem þarf að keppast við truflanir frá hinum hliðstæðu raunveruleikum um athygli áhorfenda.
Þessir ólíku raunveruleikar tengjast jafnframt inn í orðræðu um mannhverfu og spurninguna um það hver sé hinn ríkjandi veruleiki. Er sjónum okkar því beint að því að við mannfólkið erum aðeins hluti af stærra, víxlverkandi kerfi ásamt því sem okkur er boðið að endurskilgreina tilvist okkar og skerpa á eigin sýn í sambandi við önnur fyrirbæri – hvort sem um er að ræða mennskar eða ómennskar verur, tækniheiminn eða fjölbreytt vistkerfi.
Sól Hansdóttir (f. 1994) útskrifaðist með MA-gráðu í fatahönnun frá Central Saint Martins í London árið 2021. Hún endurnýtir gjarnan efni sem hún finnur í kringum sig og gefur því nýtt líf í flíkum sem eru hannaðar með einfeldni og innsæi að leiðarljósi. Útskriftarverkefni hennar, Þrjár kenningar um illsku, hlaut skapandi verðlaun L’Oréal Professionel og lagði grunninn að einstöku hönnunarferli hennar. Hönnun hennar hefur meðal annars verið sýnd á London Fashion Week og í Gerðarsafni í Kópavogi.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.