Í undirdjúpum eigin vitundar – sýningarstjóra­spjall

Sunnudaginn 28. ágúst kl. 14, á lokadegi yfirlitssýningarinnar Í undirdjúpum eigin vitundar, sem spannar feril Gunnars Arnar Gunnarssonar, verður boðið upp á sýningarstjóraspjall með Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar, sem mun segja gestum frá ævi og starfi listamannsins.

Á sýningunni má sjá verk frá öllum ferli Gunnars Arnar, sem spannar tæplega fjóra áratugi, en á þeim tíma gekk hann í gegnum nokkrar umbreytingar og stokkaði reglulega upp viðfangsefni sín. Þá var Gunnar Örn gríðarlega afkastamikill listamaður og eftir hann liggur mikill fjöldi verka: teikningar, einþrykk, málverk og skúlptúrar, vatnslitaverk auk verka sem unnin eru með blandaðri tækni.

Gunnar Örn Gunnarsson (1946-2008) lærði á selló í Kaupmannahöfn veturinn 1963-64 og sótti einnig teikninámskeið hjá Svend Nielsen í Danmörku en var að öðru leiti sjálfmenntaður í myndlist. Gunnar Örn var virkur í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem verk hans voru meðal annars sýnd í Danmörku, Tókýó, Búdapest og í galleríi Achims Moeller í New York. Gunnar Örn var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1988. Verk eftir listamanninn eru í eigu fjölmargra safna á Íslandi en einnig má finna verk hans í Guggenheim-safninu í New York, samtímalistasafninu Sezon (Seibu) í Tókýó og Moderna-safninu í Stokkhólmi.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.