Í tíma og ótíma – sýningarstjóraspjall

Sunnudaginn 11. ágúst kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á sýningarstjóraspjall um sýningu safnsins, Í tíma og ótíma, þar sem sjónum er beint að margvíslegum birtingarmyndum tímans í verkum ‏listakvennanna Örnu ÓttarsdótturLeslie Roberts og Amy Brener. Þá mun sýningarstjórinn Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir taka á móti gestum og segja frá verkum og vinnuaðferðum listakvennanna, auk þess að varpa ljósi á samhengi verkanna innan sýningarinnar.

Hugmyndir um tíma fléttast á mismunandi hátt inn í verk listakvennanna þriggja, þar sem segja má að þær safni ummerkjum um samtíma okkar og færi yfir í á‏‏þreifanlegt form með persónulegri túlkun og ólíkum aðferðum. Þá er að finna vissan léttleika og húmor í verkunum – eitthvað í ætt við kæruleysi – sem mætti túlka sem viðleitni til að gangast við fáránleika samtímans. Ef til vill mætti lesa verk þeirra sem tilraun til að stöðva tímann eða jafnvel að stíga út úr samtímanum.

Arna Óttarsdóttir (f. 1986, Íslandi) lauk BFA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur haldið reglulegar sýningar síðan, ein og með öðrum, innanlands og utan. Á nýliðnum árum hefur hún haldið markverðar einkasýningar í Nýlistasafninu, i8 Gallerí og Harbinger. Árið 2021 voru verk hennar til sýnis á sýningunni Iðavöllur: Íslensk list á 21. öldinni í Listasafni Reykjavíkur. Verk hennar hafa til dæmis verið sýnd í Nordatlantens Brygge, Kaupmannahöfn; Turner Contemporary í Margate; Åplus í Berlín; Cecilia Hillström-galleríinu, Stokkhólmi and Asya Geisberg-galleríinu í New York. Arna býr og starfar í Reykjavík.

Leslie Roberts (f. 1957, Bandaríkjunum) vinnur verk sem drifin eru af litum, tungumáli og sjálfssettum reglum. Hún hefur haldið sýningar í New York-borg og víða um Bandaríkin, til dæmis í Minus Space, Marlborough-galleríinu, McKenzie Fine Art, 57W57 Arts, Pierogi, Kathryn Markel, Tiger Strikes Asteroid NY, PPOW, og Brooklyn-safninu í New York; Weatherspoon-listasafninu (Greensboro, North Carolina); og Wellin-safninu (Clinton, New York). Árið 2024 fékk hún styrki frá Gottlieb-sjóðnum og Pollock Krasner-sjóðnum. Hún hefur dvalið sem listakona í Yaddo, Ucross, Ragdale, Virginiu-listamiðstöðinni, Skowhegan, og víðar. Hún er með BA-gráðu frá Yale og MFA frá Queens College. Leslie hefur búið í Brooklyn í rúmlega þrjá áratugi og er Professor Emerita við Pratt-stofnunina.

Amy Brener (f. 1982, Kanada) býr og starfar í New York. Hún útskrifaðist með MFA-gráðu frá Hunter College árið 2010 og nam við Skowhegan School of Painting and Sculpture 2011. Verk hennar hafa verið sýnd í galleríum og stofnunum í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Kína. Þar ber hæst sýningar í MoMA PS1 í New York, Aldrich-nýlistasafninu í Connecticut, Nasher-skúlptúrmiðstöðinni í Dallas, Speed-listasafninu í Kentucky, Galerie Pact í París, Wentrup-galleríinu í Berlín, MacLaren-listamiðstöðinni í Ontario og Riverside-listasafninu í Beijing. Um verk hennar hefur einnig verið fjallað í prentmiðlum á borð við The New York Times, Art in America, Vogue, CURA, Hyperallergic, Artnet News og The Brooklyn Rail. Hún er aðstoðarprófessor við Hamilton College í Clinton, New York.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.