Sýningunni Hrynjandi, þar sem sjá má valin verk eftir myndlistarkonuna Guðmundu Andrésdóttur, lýkur sunnudaginn 22. ágúst næstkomandi og verður því boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 á síðasta sýningardegi hennar. Þá munu sýningarstjórarnir Unnur Mjöll S. Leifsdóttir og Hólmar Hólm spjalla við gesti um sýninguna, líf og list Guðmundu. Gestir eru vinsamlegast beðnir um að bera grímur á viðburðinum, auk þess að gæta fjarlægðar við sér ótengda aðila.
Guðmunda Andrésdóttir (1922-2002) var ein þeirra listamanna sem unnu í anda geómetrískrar abstraksjónar á Íslandi en hún sýndi til að mynda reglulega með hinum þekkta Septem-hópi. Guðmunda var enn fremur eina konan sem sýndi með hópnum en á þessum tíma, á árunum eftir stríð, litu myndlistarmenn, konur og karlar, sérstaklega til óhlutbundins myndmáls í leit sinni að alþjóðlegu tungumáli sem tjá mætti hreinan sannleika, sameiginlegan öllum mönnum, óháð uppruna og aðstæðum, líkt og nótur tónlistarinnar.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.