Hljóðön – Vitmót

Sunnudaginn 24. apríl kl. 20 fara fram tónleikar Ragnars Árna Ólafssonar, gítarleikara og tónskálds, og tónlistarhópsins Skerplu í Hafnarborg en tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröðinni Hljóðönum. Á efnisskránni er að finna verk sem samsköpuð eru með gervigreind í verkum Ragnars Árna Ólafssonar og Jennifer Walshe. Í verkunum spretta fram áleitar spurningar um stöðu listaverksins, lokamynd þess og rödd höfundarins.

Frumflutt verður verk Ragnars Árna, Vitmót (e. Intellectible Shapes), sem skapað er með gervigreind og unnið sérstaklega í tilefni tónleikanna. Þá leikur verkið á mörkum frásagnar um sköpunarferli verksins og þeirrar tónlistar sem upp úr því ferli sprettur. Ásamt þessu mun tónlistarhópur tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, Skerpla, í samstarfi við Ragnar Árna, frumflytja nokkur verka úr verkaröð Jennifer Walshe, The Text Score Dataset 1.0. Verkin eru upprunnin úr lærdómsferli gervigreindar, úr víðtæku gagnasafni textaverka sem Jennifer, ásamt Ragnari Árna, hefur sett saman allt frá 2017 og inniheldur yfir þrjú þúsund textaskor síðustu 80 ára, frá upphafi Flúxus-stefnunnar og til samtímans. Verkefnið nýtur stuðnings PRiSM Centre við Royal Northern College of Music.

Ragnar Árni Ólafsson, gítarleikari og tónskáld, lagði stund á nám í klassískum gítarleik og síðar í tónlistarflutningi með lifandi rafhljóðum. Hann vinnur með hugbúnað sem hljóðfæri og tvinnar spunaleik saman við opnar tónsmíðar um hegðun og samspil hugmynda og véla. Í verkum sínum sækir hann innblástur í vísindaskáldskap og kenningar um tónmannlíf og eðli tilveru raunveruleika og birtist útkoman allt í senn sem hljóð, texti og mynd. Ragnar Árni hefur samið tónlist í samstarfi við listafólk í London, Hollandi og á Norðurlöndunum og flutt verk sín og annarra í Bretlandi, víðs vegar um Holland, í Portúgal og í Þýskalandi. Ragnar Árni hefur einnig verið virkur sem skipuleggjandi viðburða síðustu ár sem stjórnarmeðlimur Íslandsdeildar Ung nordisk musik og þannig verið milligöngumaður um samstarf ungs tónlistarfólks hérlendis sem og erlendis. Hann er einn aðalframleiðenda hátíðarinnar UNM 2022 í Reykjavík.

Skerpla er tónlistarhópur sem starfar innan Listaháskóla Íslands og var stofnaður haustið 2018. Skerpla rannsakar, skapar og flytur tónlist af tilraunakenndum toga með það að markmiði að víkka út hefðbundnar hugmyndir um tónlist. Berglind María Tómasdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands, leiðir Skerplu.

Tónskáldið og flytjandinn Jennifer Walshe hefur verið nefnd sem „sérstakasta rödd samtímatónlistar frá Írlandi í yfir 20 ár“ (The Irish Times) og hefur tónlist hennar verið verið flutt um heim allan. Þriðja plata hennar, A Late Anthology of Early Music Vol. 1: Ancient to Renaissance, kom út árið 2020. Platan nýtir gervigreind til þess að endurvinna hornsteina vestrænnar tónlistarsögu. Platan var valin plata ársins af The Irish Times, The Wire og The Quietus. Jennifer Walshe er prófessor við Hochschule für Musik und Darstellende Kunst í Stuttgart. Verk hennar voru nýlega í brennidepli hjá Alex Ross í The New Yorker.

Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð er kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs og starfslauna tónskálda.