Hljóðön – Minni

Sunnudaginn 8. október kl. 20 fara fram í Hafnarborg tónleikar Berglindar Maríu Tómasdóttur, flautuleikara, og Júlíu Mogensen, sellóleikara, en tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröðinni Hljóðönum. Yfirskrift tónleikanna, Minni, er fengin úr nýju verki Berglindar Maríu sem frumflutt verður á tónleikunum. Verkið hverfist um samband tímans og minnisins – hvernig minnið tekst á við að varðveita tímann. Þá mun Júlía Mogensen frumflytja eigið verk, Samtal, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna fyrir raf-akústíska strengjahljóðfærið dórófón. Hljóðfærið sem Júlía mun koma til með að leika á á tónleikunum er úr eigu tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og var smíðað með stuðningi Hönnunarsjóðs árið 2022.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg: almennt miðaverð er 2.500 krónur og er verð fyrir eldri borgara og námsmenn 1.500 krónur.

Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013. Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs.


Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á hátíðum víðs vegar í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er prófessor við Listaháskóla Íslands.

Júlía Mogensen er klassískt menntaður sellóleikari og reglulegur flytjandi nýrrar tilraunakenndar tónlistar. Hún hefur áhuga á að kanna hljóð sem miðil til mögulegra umbreytinga. Hún hefur átt í fjölbreyttu samstarfi við breiðan hóp listamanna, á sviði, í upptökum og sem meðtónskáld í fjölbreyttum verkefnum bæði hér heima og erlendis. Frá 2019-2020 stundaði hún nám í myndlist við Listaháskóla Íslands þar sem hún rannsakaði margþætt tengsl flytjandans, áhorfandans og hljóðfærisins í gegnum ólíka miðla. Júlía lærði við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í London við Guildhall School of Music & Drama og síðar í Berlín. Hún var meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar árin 2013-2019.

Dórófónn er raf-akústískt strengjahljóðfæri sem nýtir hljóðbakflæði (e. feedback) til að framkalla hljóm strengjanna en segja má að tónlitur þess liggi á milli þess að hljóma eins og orgelpípa, rafmagnsgítar og strokið strengjahljóðfæri. Dórófónar eru hugverk Halldórs Úlfarssonar og hafa verið í þróun í að verða tuttugu ár. Dórófónar hafa komið víða við sögu og verið sýndir á hönnunar- og listasýningum um Evrópu. Þá hefur vegur þeirra aukist mjög í seinni tíð vegna velgengni Hildar Guðnadóttur sem hefur notað hljóðfærið í sinni tónlistarsköpun, þar á meðal í mörgum áhugaverðum samstarfsverkefnum, svo sem í upptökum með hljómsveitunum Sunn 0))) og The Knife. Hljóðfærið sem nýtt verður á tónleikum Hljóðana haustið 2023 er í eigu tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, þar sem það er notað til kennslu.