Hljóðön – Breytilegt ljós og bergmál

Sunnudaginn 22. febrúar kl. 20 verða þriðju tónleikarnir í tónleikaröðinni Hljóðön haldnir í Hafnarborg og bera þeir yfirskriftina Breytilegt ljós og bergmál. Þar koma fram Hlín Pétursdóttur Behren, sópransöngkona, Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari og Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari. Tónleikarnir gefa sérstaka innsýn inn í hljóðheim og hugarefni ólíkra tónskálda frá Finnlandi og Íslandi, þeirra Kaiju Saariaho og Elínar Gunnlaugsdóttur, má þar finna fyrir ólíkum efnistökum þó einnig megi finna sameiginlega þætti í verkum þeirra. Frumflutt verða tvö verk eftir Elínu „Sumardagurinn fyrsti“ við ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson og „échO“ við ljóð eftir marokkóska skáldið Siham Issami og er það samið sérstaklega fyrir tónleikana. Verkið fjallar mannsröddina og um dísina Ekkó og hvernig hún veslast upp af ástarsorg þangað til ekkert er eftir af henni nema bergmál raddar hennar. Tvö einleiksverk eftir Kaiju Saariaho verða flutt fyrir fiðlu annars vegar og svo fyrir píanó hins vegar. Einnig verður flutt verk fyrir sópran og fiðlu og svo verk fyrir söngrödd og rafhljóð.

Flytjendur tónleikanna eru allir í fremstu röð tónlistarmanna á Íslandi en það eru:

Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, hefur komið fram sem gestur í óperuhúsum víðsvegar um Þýskaland, auk þess að syngja í Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíþjóð og kynna íslenska tónlist á ljóða- og kirkjutónleikum. Auk óperu- og óperettutónlistar hefur Hlín sungið öll helstu verk kirkjubókmenntanna, tekið þátt í flutningi kammerverka og nútímatónlistar, auk þess að halda ljóðakvöld og kemur hún reglulega fram á tónleikum í Þýskalandi og hér heima.

Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari, hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Noregi, Grænlandi og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar og  hefur tekið þátt í ýmsum hátíðum eins og Ung Nordisk Musik og Við Djúpið á Ísafirði og hátíðarinnar Berjadaga á Ólafsfirði. Hún hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum og frumflutt ýmsa nýja tónlist með kammersveitinni Ísafold.

Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, kom einnig fram á síðustu tónleikum Hljóðanar í Hafnarborg þar sem frumflutt var verkið ÞYKKT, eftir hana sjálfa sem vakti mikla athygli og hlaut glæsilega dóma. Una hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og hefur hún leikið með mörgum hjómsveitum í Evrópu og má þar nefna Ensemble Modern í Frankfurt, Rundfunk-Sinfóníuhljómsveitina í Berlín, Deutsche Oper í Berlín, Klangverwaltung í München og m.a. verið konsertmeistari Klassísku Fílharmóníunnar í Bonn, Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi og hljómsveitar Íslensku óperunnar. Þá hefur hún leikið með Kammersveit Reykjavíkur frá 1995. Una leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík, Nýja Tónlistarskólann og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgöngumiðar á tónleikana eru seldir í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.