Fimmtudaginn 16. júní kl. 17:30 munu þau Rósa Guðrún Sveinsdóttir og Eiríkur Rafn Stefánsson heiðra tónlistarsamstarf Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong með síðdegistónleikum í Hafnarborg, ásamt píanóleikaranum Tómasi Jónssyni og bassaleikaranum Birgi Steini Theódórssyni. Tónleikarnir standa í tæpa klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong þarf vart að kynna en þau eru einhverjir dáðustu djasssöngvarar sögunnar. Bæði Ella og Louis voru þegar orðin stór nöfn í tónlistarheiminum á 5. áratug síðustu aldar þegar þau gáfu út plötuna Ella & Louis á vegum Verve plötuútgáfunnar árið 1956. Fékk sú plata mikið lof gagnrýnenda og setti þetta samstarf þeirra tóninn fyrir önnur söngdjassdúó sem síðar fylgdu á eftir. Stúdíóplötur þeirra urðu á endanum þrjár og allar nutu þær mikilla vinsælda en á tónleikunum ætla Rósa og Eiríkur að flytja sín uppáhaldslög eftir dúóið.
Rósa Guðrún Sveinsdóttir er söngkona, saxófón- og flautuleikari búsett í Hafnarfirði. Hún hefur lokið burtfararprófum í rytmískum söng og saxófónleik frá Tónlistarskóla FÍH og starfað sem tónlistarmaður um árabil. Hún hefur gefið út plötu undir eigin nafni og látið til sín taka í íslenskri djasssenu. Hún hefur meðal annars komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, Múlanum, Iceland Airwaves og Freyjujazz. Rósa hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum, meðal annars með Stórsveit Reykjavíkur og Tómasi R. Einarssyni.
Eiríkur Rafn Stefánsson er trompetleikari, útsetjari og tónsmiður. Hann lauk burtfararprófi frá FÍH í rytmískum trompetleik og hélt seinna út til Hollands til að nema djassútsetningar og tónsmíðar við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Eiríkur hefur verið virkur trompetleikari og útsetjari, bæði hér heima sem og erlendis um árabil. Hann hefur meðal annars spilað með Stórsveit Reykjavíkur, Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar, hljómsveitinni Valdimar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar. Sem útsetjari hefur hann svo skrifað fyrir Stórsveit Reykjavíkur, Stórsveit Tónlistarhússins í Amsterdam (Jazzorkest van het Concertgebouw), Nemendastórsveit Hollands (Nederlands Jazzorkest) og Samtök íslenskra lúðrasveita, svo fátt eitt sé nefnt.
Tónleikarnir eru styrktir af menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.