Hádegistónleikar – Þorsteinn Freyr Sigurðsson

Þriðjudaginn 3. desember kl. 12 mun Þorsteinn Freyr Sigurðsson, tenór, koma fram á næstu hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara, undir yfirskriftinni Óperujól, í anda aðventu og aðdraganda hátíðarinnar. Á tónleikunum mun Þorsteinn flytja lög eftir Sigvalda Kaldalóns og Indriða Einarsson, Mozart, Massenet og Puccini.

Þorsteinn Freyr Sigurðsson, tenór, fæddist árið 1984 á Siglufirði. Hann hóf söngnám árið 2005 við Tónskóla Reykjavíkur en frá 2007 til 2010 hélt hann námi sínu áfram við Listaháskóla Íslands. Þorsteinn útskrifaðist síðan með mastersgráðu í óperusöng árið 2013 frá Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Þorsteinn hefur mikla reynslu af ljóðasöng og hefur bæði komið fram á tónleikum í Þýskalandi og á Íslandi.

Þorsteinn hefur tekið þátt í óperustúdíói Íslensku óperunnar, 2006 og 2008. Frá 2008 til 2010 var hann svo meðlimur í Kór íslensku óperunnar og söng með kór í óperunum Pagliacci, Cavalleria rusticana og L’elisir d’amore. Árið 2012 söng Þorsteinn hlutverk Don Ottavio í óperunni Don Giovanni eftir W. A. Mozart á vegum Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði, sem flutt var þar og í Hörpu í Reykjavík. Þorsteinn var einnig fastráðinn í Theater Ulm í Suður-Þýskalandi frá árunum 2014 til 2017. Þá söng Þorsteinn hlutverk Spoletta í uppfærslu Íslensku óperunnar á Tosca haustið 2017. Þorsteinn flutti til Íslands árið 2017 og starfar nú við söng, söngkennslu, raddþjálfun kóra og kórstjórn.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.