Hádegistónleikar – Þóra Einarsdóttir

Þriðjudaginn 6. desember kl. 12 mun sópransöngkonan Þóra Einarsdóttir koma fram á síðustu hádegistónleikum ársins í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Í aðdraganda jóla munu þær flytja vel og síður þekktar Ave Maríur eftir Bach, Gounod, Caccini, Lorenc, Gomez og Verdi en hver á sér áhugaverða sögu.

Þóra Einarsdóttir stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík og við óperudeild Guildhall School of Music and Drama en hún hefur að auki lokið MA-prófi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Þóra hóf feril sinn að námi loknu við Glyndebourne Festival Opera árið 1995. Síðan hefur hún starfað víða, svo sem við Ensku þjóðaróperuna, Opera North, Opera Factory, óperuhús í Mannheim, Nürnberg, Darmstadt, Berlín, Basel, Genf, Lausanne, Prag, Salzburg, Bologna, Malmö og í Wiesbaden, þar sem hún var fastráðin í átta ár. Þá hefur hún sungið fjöldamörg hlutverk við Íslensku óperuna, auk þess sem hún hefur sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwhistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen og Gregory Frid, Gunnar Þórðarson og Daníel Bjarnason.

Þóra hefur lagt áherslu á ljóðasöng og tekið þátt í flutningi fjölda kirkjulegra verka. Hefur hún komið fram á tónleikum víða um heim ásamt þekktum hljómsveitum, meðal annars í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dom, Philharmonie am Gasteig, Kennedy Center í Washington og Weil Recital Hall í New York. Þá hefur hún sungið inn á fjölda hljóðritana bæði hér heima og erlendis. Hún söng til að mynda hlutverk Mimi í fyrstu heildarútgáfunni á óperunni Vert-Vert eftir Offenbach sem kom út hjá Opera Rara í London. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir söng sinn og verið sæmd hinni íslensku fálkaorðu og Dannebrog-orðunni. Þóra gegnir nú starfi sviðsforseta tónlistar, sviðslista og kvikmyndalistar hjá Listaháskóla Íslands.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.