Hádegistónleikar – Sesselja Kristjánsdóttir

Þriðjudaginn 5. nóvember kl. 12 mun Sesselja Kristjánsdóttir, mezzósópran, koma fram á næstu hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum flytur Sesselja aríur eftir Gluck, Massenet, Bizet og Saint-Saens.

Sesselja Kristjánsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem kennari hennar var Rut Magnússon. Þaðan hélt hún í framhaldsnám til Berlínar við Hochschule für Musik Hanns Eisler og lauk þar diplómaprófi með hæstu einkunn. Sesselja hlaut Bayreuth-styrk þýsku Richard Wagner samtakanna sumarið 2000. Sesselja hefur verið mjög virk í íslensku tónlistarlífi og hefur sinnt flutningi óperu-, ljóða-, óratoríu- og kammertónlistar jöfnum höndum.

Sesselja hefur komið fram á fjölda tónleika hér heima og erlendis, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmoníusveit Sankti Pétursborgar og Kammersveit Reykjavíkur. Þá hefur hún sungið á hinum ýmsu tónlistarhátíðum og tónleikaröðum. Verkefni hennar á sviði konsert- og óratóríutónlistar eru fjölmörg. Sesselja var fastráðin við Íslensku óperuna 2002-2004 og hefur síðan verið þar reglulegur gestur. Sesselja söng inn á plötuna Svanasöngur á heiði, ásamt Jónasi Ingimundarsyni.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.