Hádegistónleikar – Jóhann Smári Sævarsson

Þriðjudaginn 7. október kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika í Hafnarborg en þá verður Jóhann Smári Sævarsson gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskrá tónleikanna, sem bera yfirskriftina „Ást og svik“, verða aríur úr óperum eftir ítölsku tónskáldin Verdi og Rossini.

Jóhann Smári Sævarsson, bassi, hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Þá stundaði hann framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði Jóhann Smári sig svo við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg og hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa og tónleikastaða í Evrópu, meðal annars í Köln, Bonn, Nürnberg, Bregenz, Prag, á Glyndebourne-hátíðinni og í Royal Albert Hall í London.

Jóhann hefur sungið yfir 50 hlutverk á ferlinum, þar á meðal Baron Ochs, Filippo II, Sarastro, titilhlutverkið í Mefistofele, Hollendinginn fljúgandi, Fígaró, Onegin, titilhlutverkið í Gianni Schicci og Tevje í Fiðlaranum á þakinu. Þá var hann tilnefndur sem rödd ársins 2010 á Íslensku tónlistarverðlaununum, fyrir söng sinn í Vetrarferð Schuberts og sem Hallgrímur í Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. Jóhann Smári hefur kennt söng við ýmsa tónlistarskóla hér á landi og er kórstjóri Karlakórs Keflavíkur og söngsveitarinnar Víkinganna. Jóhann hefur einnig verið meðlimur sönghópsins Orfeusar frá stofnun hans og er listrænn stjórnandi óperufélagsins Norðuróps.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.