Hádegistónleikar – Sigrún Pálmadóttir

Sigrún Pálmadóttir sópran og Antonía Hevesi píanóleikari

Sigrún Pálmadóttir sópran kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 5. maí kl. 12 ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara.

Sigrún Pálmadóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri og stundaði síðan nám í Söngskólanum í Reykjavík, þaðan sem hún lauk burtfararprófi árið 1999. Hún stundaði nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart árin 1999-2001. Sama ár og hún lauk námi var hún fastráðin við Óperuhúsið í Bonn. Hér á landi hefur Sigrún sungið á Vínartónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og erlendis hefur hún haldið fjölda tónleika, þá aðallega í Þýskalandi. Sigrún hlaut verðlaun frá styrktarfélagi Óperunnar í Bonn árið 2004 fyrir velunnin störf og framfarir. Hlutverk hennar á sviði eru orðin fjölmörg og má þar nefna Næturdrottninguna íTöfraflautunni, Frasquitu í Carmen, Clorindu í Öskubusku, Olympíu í Ævintýrum Hoffmanns, Víólettu í La traviata og titilhlutverkið í Luciu di Lammermoor í óperunnni í Bonn sem hún hlaut einróma lof fyrir.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.