Hádegistónleikar – Hrafnhildur Árnadóttir

Þriðjudaginn 7. desember kl. 12 kemur sópransöngkonan Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað fram á næstu hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á tónleikunum mun Hrafnhildur flytja aríur eftir Dvořák, Cilea, Puccini og Strauss. Vinsamlegast athugið að takmarkaður fjöldi sæta er í boði vegna gildandi fjöldatakmarkana.

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, hóf nám sitt við Söngskólann í Reykjavík og lauk meistaranámi frá Hollensku óperuakademíunni árið 2015. Meðal óperuhlutverka sem Hrafnhildur hefur farið með eru Echo í Ariadne auf Naxos, Thérèse í Les Mamelles de Tirésias, Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós, Fiordiligi í Cosi fan tutte og Alcina í samnefndri óperu eftir Händel. Einnig kemur hún reglulega fram á tónleikum og hefur meðal annars sungið Vier letzte Lieder eftir R. Strauss, Petite messe solennelle eftir G. Rossini, Exsultate, jubilate eftir Mozart, Gloria eftir F. Poulenc og Der Hirt auf dem Felsen eftir F. Schubert. Meðal nýlegra verkefna Hrafnhildar á Íslandi má nefna Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2019, tónleika í tónleikaröðinni Tíbrá í Salnum, tónleika með Barokkbandinu Brák á Óperudögum í Reykjavík, óperugjörninginn Free Play í Vinabæ og Listasafni Reykjavíkur, Bjöllurnar eftir Rachmaninov með Söngsveitinni Ægisif og Kúnstpásu hjá Íslensku óperunni. Hrafnhildur var ein sigurvegara í keppninni Ungir einleikarar árið 2011 á vegum SÍ og LHÍ og árið 2013 söng hún í úrslitum keppninnar Concours d’Excellence de l’U.P.M.C.F. í París. Þá hefur hún hlotið dvalarstyrk Selsins á Stokkalæk, samfélagsstyrk Valitor og listamannalaun Rannís.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Aðgangur er ókeypis en takmarkaður fjöldi sæta er í boði vegna gildandi fjöldatakmarkana. Þá skulu gestir sitja í númeruðum sætum, auk þess sem skrá skal upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer viðstaddra. Eru gestir því beðnir um að taka frá sæti í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins eða í tölvupósti á [email protected]. Grímuskylda er á tónleikunum.