Hádegistónleikar – Hörn Hrafnsdóttir

Þriðjudaginn 4. október kl. 12 mun Hörn Hrafnsdóttir, mezzósópran, koma fram á öðrum hádegistónleikum haustsmisserisins í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina Stelpur og stéttaskipting en á efnisskránni eru aríur úr óperum eftir tónskáldin Bizet, Ponchielli, Verdi og Saint-Saëns.

Hörn Hrafnsdóttir, mezzósópran, stundaði hljóðfæranám í Tónlistarskóla Kópavogs á sínum yngri árum og söng einnig í Skólakór Kársness. Síðar nam hún söng í Söngskólanum í Reykjavík og lauk þar 8. stigi í söng. Í kjölfarið nam hún söng í einkatímum, meðal annars hjá Elínu Ósk Óskarsdóttur, sópran, og Kristjáni Jóhannssyni, tenór, á Íslandi, hjá Svanhvíti Egilsson í Vín, Rubert Forbes í Edinborg og þeim Joy Mammen og Paul Ferrington í London. Árið 2007 vann Hörn svo til fyrstu verðlauna í söngkeppninni Barry Alexander International Vocal Competition. Af því tilefni var henni boðið að syngja í tvígang í Weill Recital Hall í Carnegie Hall, New York, árið 2008. Um sumarið var henni síðan boðið að taka þátt í tíu daga tónlistarhátíð í Tolentino á Ítalíu.

Auk fjölda einsöngstónleika hefur Hörn sungið hlutverk hjá Íslensku óperunni, svo sem hlutverk Amnerisar í Aídu eftir Verdi, hlutverk Ziu Prinzipessu í Suor Angelica eftir Puccini og hlutverk Luciu í Cavalleria Rusticana eftir Mascagni. Þá stofnaði Hörn Óp-hópinn árið 2009 ásamt Antoníu Hevesí. Þar söng hún meðal annars hlutverk Ziu Prinzipessu í Suor Angelica og Hans í Hans og Grétu, þegar barnaóperan var sett upp í Salnum í Kópavogi árið 2014. Hópurinn hélt úti öflugu starfi árin 2009-2016 og setti upp sýningar og tónleika af ýmsum gerðum, þar sem til að mynda var blandað saman leik og söng og sagt frá lífi tónskálda.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.