Hádegistónleikar – Hanna Þóra Guðbrandsdóttir

Þriðjudaginn 9. september kl. 12 hefja hádegistónleikar í Hafnarborg göngu sína að nýju en á þessum fyrstu tónleikum vetrarins verður Hanna Þóra Guðbrandsdóttir gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á dagskránni verða aríur úr óperum og óperettum eftir Mozart, Verdi, Dvořak og Lehár. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er „Ástarbænir og þakklæti“.

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akranesi árið 1996 og lagði því næst stund á söngnám við Söngskólann í Reykjavík, þaðan sem hún lauk stigsprófi vorið 2005. Þá hefur hún stundað söngnám í Kaupmannahöfn, Osló og Berlín í gegnum árin, auk þess að sækja meistaranámskeið og söngtíma hjá ýmsum virtum kennurum. Sumarið 2008 var Hanna Þóra valin til þess að taka þátt í söngkeppninni International Hans Gabor Belvedere Competiton, sem er ein stærsta keppni í heimi fyrir unga og upprennandi óperusöngvara. Hún hefur sungið sem einsöngvari með ýmsum kórum og við kirkjulegar athafnir. Eins hefur hún oft komið fram á vegum Íslensku óperunnar, jafnt með kór óperunnar og sem einsöngvari.

Hanna Þóra hefur meðal annars sungið hlutverk Fiordilige í óperunni Cosi fan tutte eftir Mozart í Óperustúdíó Íslensku óperunnar 2008. Hanna Þóra var einnig einsöngvari í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson sem Íslenska óperan setti upp 2014. Hún fór svo með hlutverk í óperunni Skáldinu og biskupsdóttirinni eftir Alexöndru Chernyshova og Guðrúnu Ásmundsdóttur, sem var frumflutt í Hallgrímskirkju í Saurbæ vorið 2014. Þá hefur Hanna Þóra farið með sópranhlutverkið í Oratorio de Noél eftir Camille Saint-Saens og flutt „Stabat Mater“ eftir Pergolesi ásamt kammerhópnum Reykjavík Barokk. Í júlí 2015 söng Hanna Þóra hlutverk Gerhilde í Die Walküre eftir Wagner í sumardagskrá Norsku óperunnar. Hún söng svo í nýrri óperu eftir Alexöndru Cherniyshova um frú Vigdísi Finnbogadóttur, auk þess sem hún söng í tónleikaröð Classical Concert Company Reykjavík frá upphafi til enda tónleikaraðarinnar. Hún hefur sömuleiðis verið ötul í að setja upp hina ýmsu tónleika og lagt áherslu á að efla menningarlíf bæjarfélags síns, Akraness, og Vesturlands. Hún var til dæmis ein af stofnendum Söngdætra Akraness, sem er hópur söngkvenna frá Akranesi sem Akurnesingar eru farnir að þekkja vel, og jafnframt má nefna að hún var valin bæjarlistamaður Akraness árið 2011.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.