Hádegistónleikar – Guðmundur Karl Eiríksson

Þriðjudaginn 13. september kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika vetrarins, sem hefja nú tuttugasta starfsár sitt í Hafnarborg, en þá mun koma fram barítóninn Guðmundur Karl Eiríksson, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara.

Guðmundur Karl Eiríksson lauk framhaldsprófi í söng frá Söngskóla Reykjavíkur þar sem hann lærði hjá Garðari Thor Cortes. Einnig stundaði hann nám við Söngskóla Sigurðar Demetz undir leiðsögn Kristjáns Jóhannssonar. Hann lauk svo diplómanámi á meistarastigi á Ítalíu undir leiðsögn barítónsins Renato Bruson frá Accademia Renato Bruson. Guðmundur hefur komið fram á fjölda tónleika hérlendis sem og á Ítalíu. Þá hefur hann einnig tekið þátt í óperuuppfærslum en hann fór til að mynda með hlutverk Schaunard úr La bohéme á Rimini, Ítalíu, undir stjórn Joseph Rescigno. Einnig fór hann með hlutverk Þórs í Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson á Óperudögum í Reykjavík árið 2018.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann en er þeim frestað um viku að þessu sinni vegna uppsetningar haustsýningar Hafnarborgar og fara því fram annan þriðjudag mánaðarins, þann 13. september.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.