Hádegistónleikar – Guðbjörg og Guðmundur

Þriðjudaginn 1. október kl. 12 munu Guðbjörg R. Tryggvadóttir, sópran, og Guðmundur Karl Eiríksson, barítón, koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum, sem bera yfirskriftina Karlaveldi, flytja þau, saman og í sitt hvoru lagi, vel valdar aríur eftir ítalska tónskáldið Verdi.

Guðbjörg R. Tryggvadóttir lauk burtfararprófi, auk söngkennaraprófs, frá Söngskólanum í Reykjavík en framhaldsnám stundaði hún í Kaupmannahöfn hjá André Orlowitz. Síðustu ár hefur Guðbjörg svo æft undir leiðsögn Kristjáns Jóhannssonar og Antoníu Hevesi. Þá starfaði Guðbjörg með Kór Íslensku óperunnar frá 1994 til 2002. Guðbjörg hefur einnig komið víða fram sem einsöngvari, bæði hérlendis og erlendis. Síðustu ár hefur Guðbjörg jafnframt komið fram á tónleikum í Hörpu og Hofi á Akureyri, ásamt Aðalsteini Má Ólafssyni og Gunnari Birni, hádegistónleikum Kristjáns Jóhanssonar í Hafnarborg og nú síðast í tónleikaröðinni Sígildum sunnudögum í Hörpu með Guðmundi Karli Eiríkssyni.

Guðmundur Karl Eiríksson hóf söngnám í Söngskóla Reykjavíkur árið 2011 undir leiðsögn Garðars Thors Cortes en árið 2015 hóf hann nám hjá Kristjáni Jóhannssyni. Í ár lauk hann svo masters-diplómu á Ítalíu undir leiðsögn Renato Bruson. Guðmundur hefur komið fram á tónleikum hér á Íslandi sem og á Ítalíu og fór til að mynda með hlutverk Schaunard úr La bohéme á Rimini, Ítalíu, árið 2017. Guðmundur stendur einnig fyrir árlegum jólatónleikum á Flúðum, þar sem hann fær til sín suma af flottustu söngvurum landsins.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.