Þriðjudaginn 10. maí kl. 12 mun Elmar Gilbertsson, tenór, koma fram á síðustu hádegistónleikum vetrarins í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Þá munu þau flytja lög eftir Donizetti, Verdi, Lehár og Ernesto de Curtis.
Elmar Gilbertsson útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2007. Eftir það lá leiðin til Hollands í meistaranám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag. Kennarar hans þar voru Jón Þorsteinsson og Peter Nilson. Eftir námið var Elmar svo tekin inn í Óperustúdíó Hollensku óperunnar, þar sem hann starfaði í tvö ár. Þá fékk hann fastráðningu og síðar gestaráðningu hjá óperunni í borginni Maastricht, þar sem hann starfaði reglulega næstu árin, ásamt lausráðningum við óperuhús og tónleikasali víðs vegar um Evrópu. Þar má helst nefna Nantes, Toulon og Aix-en-Provence í Frakklandi, Ríkisóperuna í Amsterdam, La Monnaie De Munt óperuna í Brussel, Staatsoper Stuttgart, Brno í Tékklandi, The Barbican Center í London og Elbphilharmonie í Hamborg og Festspielhaus Baden Baden í Þýskalandi.
Elmar hefur á ferli sínum sungið og túlkað margar af helstu persónum óperubókmenntanna og hefur margsinnis komið fram hjá Íslensku óperunni. Má þar nefna Tamino í Töfraflautunni, Don Ottavio í Don Giovanni, Ferrando í Cosí fan tutte, Alfred í Leðurblökunni, Elvino í La sonnambula, Nerone í Krýningu Poppeu, Kúdrjás í Katja Kabanova eftir Janáček, prinsinn í Öskubusku eftir Rossini hjá Maastricht-óperunni, hlutverk Mímis í Rínargulli Wagners hjá hinni virtu Ruhrtriennale-listahátíð í Þýskalandi og hlutverk hertogans af Mantua í Rigoletto eftir Verdi og Lensky úr óperunni Evgéní Ónégin eftir Tchaikovsky. Haustið 2018 söng hann svo hlutverk Monostatos úr Töfraflautu Mozarts við La Monnaie í Brussel í Belgíu. Elmar hefur verið fastráðin hjá Ríkisóperu Baden Würtemberg – Staatsoper Stuttgart í Þýskalandi síðan haustið 2018. Elmar hlaut Grímuverðlaunin í flokknum söngvari ársins fyrir hlutverk Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson árið 2014 og aftur árið 2016 fyrir hlutverk Don Ottavio í Don Giovanni í uppsetningu Íslensku óperunnar. Elmar hlaut einnig Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 og 2016 sem söngvari ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru vanalega á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann en þeim er frestað um viku að þessu sinni, af óviðráðanlegum ástæðum, og fara því fram annan þriðjudag mánaðarins, þann 10. maí, en þeir voru upphaflega á dagskrá þann 3. maí.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.