Hádegistónleikar – Dísella Lárusdóttir

Dísella Lárusdóttir

Þriðjudaginn 1. febrúar kl. 12 kemur sópransöngkonan Dísella Lárusdóttir fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á tónleikunum mun Dísella flytja þekktar aríur eftir Donizetti, Bizet og Gounod. Vinsamlegast athugið að takmarkaður fjöldi sæta er í boði vegna gildandi fjöldatakmarkana en tónleikunum verður einnig streymt hér á heimasíðunni og á Facebook.

Dísella Lárusdóttir þreytti frumraun sína hjá Metropolitan óperunni í New York í mars 2013 en síðan þá hefur hún starfað ár hvert við húsið og sungið í tíu öðrum óperuuppfærslum á þessu merka sviði. Þess má geta að þrjár af uppfærslunum sem hún söng í, Francesca da Rimini eftir Riccardo Zandonai, Rusalka eftir Antonin Dvorák og Marnie eftir Nico Muhly voru sýndar í beinni útsendingu um allan heim í svokallaðri HD Live sýningu. Dísella hefur víða komið fram sem einsöngvari, meðal annars í Carnegie Hall í New York, Disney Hall í Los Angeles ásamt fjölda tónlistarhátíða í Bandaríkjunum. Dísella þreytti einnig nýverið frumraun sína á sviði í Evrópu (utan Íslands) þegar hún fór með hlutverk Lulu í samnefndri óperu eftir Alban Berg í óperunni í Róm á Ítalíu. Árið 2019 tók hún þátt í óperunni Akhnaten eftir Philip Glass í Metropolitan óperunni en upptaka á þeirri óperu er einmitt tilnefnd til Grammy-verðlaunanna í ár.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Aðgangur er ókeypis en takmarkaður fjöldi sæta er í boði vegna gildandi fjöldatakmarkana. Grímuskylda er á tónleikunum.