Hádegistónleikar – Bjarni Thor Kristinsson – STREYMI

Bjarni Thor Kristinsson

Þriðjudaginn 1. desember kl. 12 fara fram síðustu hádegistónleikar ársins er bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson kemur fram ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Aðventan er nú gengin í garð og eins og hefð hefur myndast fyrir undanfarin ár verður efnisskráin sveipuð hátíðlegum blæ. Flutt verða verk eftir Sigvalda Kaldalóns, Mozart, Puccini og fleiri.

Vegna gildandi samkomutakmarkana verður tónleikunum streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði hér fyrir neðan og á Facebook-síðu safnsins.

Bjarni Thor Kristinsson er hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hefur hvað lengst á erlendri grund. Hann hóf söngnám við tónlistarskólann í Njarðvík hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og lagði síðan stund á það áfram með hléum í Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík. Haustið 1994 hélt Bjarni til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín og naut þar leiðsagnar Helene Karusso og Curt Malm. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann sér einungis að lausamennsku.

Eftir að Bjarni gerðist lausamaður í söng hefur hann verið fastur gestur í Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum í Chicago, París, Feneyjum, Verona, Flórenz, Palermo, Róm, Lissabon, Barcelona, Hamborg, Dresden, München, Wiesbaden, Karlsruhe og Dortmund, svo eitthvað sé nefnt. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna sem söngvari ársins fyrir hlutverkið. Þá tók hann þátt í flutningi á verkinu Edda 1 eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2006 og söng einnig með hljómsveitinni við opnun tónlistarhússins Hörpu. Undanfarin ár hefur Bjarni Thor einnig leikstýrt nokkrum óperum og staðið fyrir tónleikaröð í Hörpu undir heitinu Pearls of Icelandic Song.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.