Hádegistónleikar – Berta Dröfn Ómarsdóttir

Þriðjudaginn 3. september kl. 12 mun Berta Dröfn Ómarsdóttir, sópran, koma fram á fyrstu hádegistónleikum nýs starfsárs tónleikaraðarinnar í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi. Á tónleikunum, sem bera yfirskriftina Táraflóð, flytur Berta Dröfn aríur eftir Händel, Mozart og Puccini.

Berta Dröfn Ómarsdóttir lauk mastersnámi í söng við Conservatorio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu eftir burtfarapróf frá Söngskólanum í Reykjavík. Hún hefur átt litríkan söngferil og komið víða við, svo sem á Gala-tónleikum í Carnegie Hall í New York, í höll í Montepulciano í Toscana-héraðinu á Ítalíu, í kastala í litlu fjallaþorpi við ítölsku alpana og í óperuuppsetningum með sinfóníuhljómsveitinni í Bolzano. Hún syngur reglulega á Ítalíu ásamt því að sinna söng og kórstjórn hér á Íslandi.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og hefur hún valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.