Hádegistónleikar – Áslákur Ingvarsson

Þriðjudaginn 2. apríl kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá verður Áslákur Ingvarsson, barítón, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar.

Áslákur Ingvarsson, barítón, lauk BA-prófi við söngbraut tónlistardeildar Listaháskóla Íslands vorið 2021 og framhaldsnámi við söngdeild Konunglegu konservatóríunnar í Antwerpen, Belgíu, haustið 2022. Þá söng hann nýverið hlutverk Marcellos og hlutverk Leporellos í uppfærslum La Musica Lirica á La bohème og Don Giovanni á Ítalíu. Á Íslandi hefur hann komið fram í hlutverki Dr. Malatesta í uppsetningu Sviðslistahópsins Óðs á Don Pasquale, í hlutverki Bens í óperunni Símanum sem sýnd var á Óperudögum 2022 og 2023 og loks sem pabbinn í óperunni Hans og Grétu í uppsetningu Kammeróperunnar. Um þessar mundir fer hann svo með hlutverk Greifans í óperunni Póst-Jón í uppsetningu Óðs.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.