Guðjón Samúelsson húsameistari – maðurinn og tónlistin

„Heimili hans var rúmgott og reisulegt, listræn húsgögn, málverk og höggmyndir eftir innlenda meistara og tvö vönduð hljóðfæri, slagharpa og orgel. Þegar ekki var mannkvæmt hjá húsameistara eftir langan vinnudag, tvískipti hann tíma sínum oft fram á miðjar nætur. Vann að teikningum sínum á vinnustofunni en lék þess á milli eftirlætislög sín á hljóðfærin í næstu stofu. Þannig liðu mörg ár. Húsameistari ríkisins var vígður þrotlausu starfi við að endurbyggja landið en naut oft að loknu dagsverki gleði með góðum gestum eða lagði leið sína inn í veröld tónanna.“ (Jónas Jónsson frá Hriflu, 1957, Íslenzk bygging, bls. 14.)

Sunnudaginn 10. nóvember kl. 17:15 verður boðið upp á sérstaka dagskrá í tengslum við sýninguna Guðjón Samúelsson húsameistara, sem nú stendur yfir í Hafnarborg, í tilefni þess að öld er liðin frá því að Guðjón lauk háskólaprófi í byggingarlist árið 1919 og var í framhaldinu skipaður húsameistari ríkisins árið 1920. Guðni Tómasson, útvarpsmaður, stýrir dagskrá, þar sem varpað verður ljósi á manninn Guðjón og sérlegan áhuga hans á tónlist. Spiluð verða tóndæmi og Antonía Hevesi, píanóleikari, leikur valin lög úr nótnabókum Guðjóns. Þá mun Guðni ræða við Pétur H. Ármannsson, arkitekt og annan sýningarstjóra sýningarinnar.

Á sýningunni sjálfri er lögð áhersla á sýn Guðjóns á eigin verk, stílþróun í byggingarlist hans og líklega áhrifavalda. Þar má sjá teikningar, ljósmyndir og líkön af byggingum húsameistarans, ásamt ýmsum tillögum sem ekki urðu að veruleika og muna úr eigu Guðjóns. Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir og Pétur H. Ármannsson. Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands, sem veittu ómetanlegt aðgengi að safnkosti sínum. Sýningin naut einnig styrks frá safnasjóði.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.