flæðir að – flæðir frá: leiðsögn og listamannaspjall

Sunnudaginn 11. september kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um nýopnaða haustsýningu Hafnarborgar, flæðir að – flæðir frá, með sýningarstjóranum Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur, auk þess sem hún mun leiða spjall við nokkra af þeim listamönnum sem eiga verk á sýningunni. Listamennirnir sem taka þátt í spjallinu að þessu sinni verða Alda Mohr Eyðunardóttir, Anna Rún Tryggvadóttir og Tadashi Ono. Viðburðurinn fer fram á íslensku og ensku.

Á sýningunni má sjá verk eftir sjö listamenn. Mörg þeirra eru alin upp á eyjum og öll eiga þau það sameiginlegt að koma frá löndum þar sem sjórinn er ein af lífæðum samfélagsins, leiðin út í heim og um leið landamæri sem skilja þau frá umheiminum. Þau hafa öll staðið við sjóinn, fundið fyrir vanmætti sínum og krafti.

Alda Mohr Eyðunardóttir (1997) er fædd og uppalin í Þórshöfn, Færeyjum, en hún stundar nú nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hún hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum í Listasafni Færeyja, í Norræna húsinu í Færeyjum og í Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn. Þá hélt Alda sína fyrstu einkasýningu í Þórshöfn árið 2019.

Anna Rún Tryggvadóttir (1980) starfar jafnt á Íslandi og í Berlín. Hún stundaði myndlistarnám við Listaháskóla Íslands og framhaldsnám við Concordia University í Montréal, Kanada. Anna Rún hefur haldið fjölda einkasýninga bæði hér á landi og í Þýskalandi, þar á meðal í Kunstlerhaus Bethaninen, Berlín, og Listasafni Reykjavíkur, auk þess að hafa tekið þátt í samsýningum í Evrópu sem og í Mexíkóborg og Buenos Aires. Anna Rún hlaut Guðmunduverðlaunin árið 2021.

Tadashi Ono (1960) fæddist í Tókýó en býr nú og starfar í París og Arles, Frakklandi. Hann lagði stund á nám í skógrækt og garðyrkjufræði áður en hann lauk meistaranámi í listljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles. Verk Tadashi hafa meðal annars verið sýnd í Bibliothèque nationale de France, Samtímalistasafni Japan í Tókýó sem og á listahátíðum eins og Kyotographie Festival og Rencontres internationales de la photographie d’Arles.

Sigrún Alba Sigurðardóttir hefur á undanförnum árum starfaði sem sýningarstjóri og fræðimaður á Íslandi og í Danmörku. Hún hefur meðal annars unnið fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Árnesinga, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Fotografisk Center í Kaupmannahöfn. Sigrún Alba hefur skrifað fjölda greina og sent frá sér nokkrar bækur um ljósmyndun, samtímamyndlist og sagnfræði en nýjasta bók hennar, Snjóflygsur á næturhimni (Mál og menning, 2022), fjallar um samspil ljósmynda, minninga og veruleika en hún kemur út á dögunum.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.