flæðir að – flæðir frá: leiðsögn og listamannaspjall

Sunnudaginn 16. október kl. 14 verður boðið upp á leiðsögn um haustsýningu Hafnarborgar, flæðir að – flæðir frá, með sýningarstjóranum Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur, auk spjalls við nokkra af þeim listamönnum sem eiga verk á sýningunni. Listamennirnir sem taka þátt í spjallinu að þessu sinni verða ljósmyndararnir Pétur Thomsen og Stuart Richardson. Viðburðurinn fer fram á íslensku og ensku.

Á sýningunni má sjá verk eftir sjö listamenn. Mörg þeirra eru alin upp á eyjum og öll eiga þau það sameiginlegt að koma frá löndum þar sem sjórinn er ein af lífæðum samfélagsins, leiðin út í heim og um leið landamæri sem skilja þau frá umheiminum. Þau hafa öll staðið við sjóinn, fundið fyrir vanmætti sínum og krafti.

Pétur Thomsen (1973) er fæddur í Reykjavík en býr nú og starfar í Grímsnesi á Suðurlandi. Hann stundaði nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Árið 2004 útskrifaðist hann svo með MFA-gráðu frá École nationale supérieur de la photographie (ENSP) í Arles. Ljósmyndir Péturs fjalla bæði um samband mannsins við tímann og við veröldina sem umlykur okkur og mótar okkur um leið og við mennirnir setjum mark okkar á hana með inngripi og umhverfingu.

Stuart Richardson (1978) er fæddur í Auckland, Nýja-Sjálandi, og uppalinn á Nýja-Englandi. Hann hefur búið á Íslandi síðan 2007 og er nú íslenskur ríkisborgari. Árið 2018 útskrifaðist hann með MFA-gráðu í ljósmyndun frá Hartford Art School, Bandaríkjunum. Ljósmyndir hans bera merki um djúphygli og næmi fyrir formum og smáatriðum í umhverfinu en verk hans fást gjarnan við umhverfishyggju, ægifegurð og hverfulleika – ýmist í tengslum við skynjun, náttúruleg fyrirbæri eða það hvernig myndir koma út á filmu eða sem vídeó.

Sigrún Alba Sigurðardóttir hefur á undanförnum árum starfaði sem sýningarstjóri og fræðimaður á Íslandi og í Danmörku. Hún hefur meðal annars unnið fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Árnesinga, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Fotografisk Center í Kaupmannahöfn. Sigrún Alba hefur skrifað fjölda greina og sent frá sér nokkrar bækur um ljósmyndun, samtímamyndlist og sagnfræði en nýjasta bók hennar, Snjóflygsur á næturhimni (Mál og menning, 2022), fjallar um samspil ljósmynda, minninga og veruleika en hún kemur út á dögunum.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.