Flæðarmál – listamanns- og sýningarstjóraspjall

Sunnudaginn 28. janúar kl. 13 bjóðum við ykkur velkomin á listamanns- og sýningarstjóraspjall um sýninguna Flæðarmál, sem opnuð var í Hafnarborg um miðjan janúar. Þá munu Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður, og Aðalheiður Valgeirsdóttir, sýningarstjóri, leiða gesti um sýninguna og segja frá verkum og vinnuferli listakonunnar.

Jónína Guðnadóttir (f. 1943) hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leirlistamanna og vakti snemma athygli fyrir einstaka nytjahluti. Hún hefur jafnframt þróað sjálfstætt myndmál í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndauðgi eru áberandi. Ferill Jónínu hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þá hafði hún lagt stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og framhaldsnám í leirlist við Konstfack í Stokkhólmi.

Frá því að Jónína hélt sína fyrstu einkasýningu í Unuhúsi árið 1968 hafa verk hennar verið sýnd víða bæði hér heima og erlendis. Verk hennar hafa jafnframt verið sýnd reglulega í Hafnarborg síðustu áratugi. Þá spannar yfirlitssýningin Flæðarmál feril Jónínu, þar sem sjá má úrval af verkum listakonunnar, allt frá nytjahlutum sem hún vann á fyrstu árunum eftir útskrift til verka sem unnin voru á síðastliðnu ári. Samhliða sýningunni hefur safnið svo gefið út innbundna og ríkulega myndskreytta sýningarskrá með grein eftir Aðalheiði.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.