Fangelsið – útgáfuhóf

Laugardaginn 28. september kl. 15 verður sérstakur viðburður í Hafnarborg í tilefni af útgáfu bókar um verkefni Olgu Bergmann og Önnu Hallin fyrir fangelsið á Hólmsheiði, sem var jafnframt til grundvallar sýningu þeirra, Fangelsi, sem nú stendur yfir í safninu. Þá verða listakonurnar á staðnum til að kynna bókina og spjalla við gesti og gangandi, jafnt um verkefnið og sýninguna sjálfa. Boðið verður upp á léttar veitingar og hægt verður að fá bókina á góðum kjörum.

Á sýningunni í Hafnarborg velta Olga og Anna fyrir sér heimi fangans, sem er skýrt afmarkaður og stendur fyrir utan okkar heim – meðan mörg önnur skil eða mörk eru við það að mást út fyrir tilstilli samfélagsmiðla og snallforrita í hinum sísmækkandi, sítengda heimi. Þá vakna ýmsar spurningar um eftirlitssamfélagið bæði innan og utan veggja fangelsisins. Í fangelsinu búa íbúarnir auðvitað við stöðugt eftirlit en utan veggja fangelsisins er hinn almenni borgari nú undir nær viðstöðulausu eftirliti, þar sem sífellt meiri upplýsingum er safnað um einstaklinginn og margar athafnir eru skrásettar jafnóðum í stafræna gagnabanka.

Að viðburðinum loknum verður bókin einnig fáanleg í safnbúð Hafnarborgar.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.