Efnisheimur steinullar – kvöldopnun á HönnunarMars

Fimmtudaginn 5. maí kl. 18-20 verður kvöldopnun í safninu í tengslum við HönnunarMars, þar sem opnun sýningar Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur, Efnisheimur steinullar, verður fagnað með formlegum hætti en sýningin stendur yfir til 15. maí. Boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Efnisheimur steinullar er samstarfsverkefni Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur þar sem leikið er með ólíkar leiðir til að umbreyta steinull í nýtt efni. Steinull sem fellur til við byggingarframkvæmdir er ekki endurnýtt í dag heldur send til urðunar. Hún er eitt af fáum byggingarefnum sem framleidd eru á Íslandi og er meginuppistaða hennar íslensk jarðefni. Sýningin er tilraunakennd og notast er við ólíka miðla til að varpa ljósi á virði hráefnis sem annars færi til urðunar. Myndskeið, ljósmyndir, efnisprufur, hlutir, hljóð og texti flæða saman í ferðalagi um áður ókannaðan efnisheim íslenskrar steinullar.

Kristín Sigurðardóttir (f. 1989) er vöruhönnuður sem býr í Gautaborg. Kristín er hluti af Willow Project sem hefur verið sýnt á Dutch Design Week og á sýningunni Earth Matters í TextielMuseum í Tilburg, Hollandi. Fjallað er um verkefnið í bókunum Radical Matter: Rethinking Materials for a Sustainable Future og Why Materials Matter: Responsible Design for a Better World. Rannsóknarverkefni Fléttu og Kristínar, Efnisheimur steinullar, er beint framhald af útskriftarverkefni Kristínar frá Listaháskóla Íslands 2016, þar sem hún vann með umbreytingu steinullar í svart glerjað efni.

Hönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir (f. 1992) og Hrefna Sigurðardóttir (f. 1989) stofnuðu Fléttu í byrjun árs 2018 en hafa unnið saman að verkefnum tengdum endurvinnslu og uppvinnslu hráefna síðan 2014. Á yfirborðinu einkennast verk þeirra af leikgleði og léttleika en undir niðri krauma gagnrýnar spurningar. Þær setja sér skorður hvað varðar efnisnotkun og vinnuaðferðir í því augnamiði að móta nýjar og sjálfbærari leiðir til að hanna og umgangast hluti. Í höndum Fléttu fá efni og hlutir sem hafa þjónað sínum tilgangi eða nýtast ekki lengur í sínu fyrra hlutverki nýtt líf í nýju samhengi. Verk þeirra hafa verið sýnd víða, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr Hönnunarsjóði, Samfélagssjóði Landsbankans og Launasjóði listamanna. Sýningin er hluti af dagskrá HönnunarMars 2022.