Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – Skerpla

Laugardaginn 10. október kl. 14:30 munu nemendur tónlistardeildar Listaháskóla Íslands halda sérstakan viðburð, undir merkjum tónlistarhópsins Skerplu, í tengslum við sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Nemendur tónlistardeildarinnar, undir leiðsögn Berglindar Maríu Tómasdóttur, prófessors, hafa síðustu misseri kafað inn í hugmyndaheim og nálgun sýningar Davíðs, þar sem tónlistarhópurinn leitar leiða til að takast á við og virkja sýninguna, sem hluta af lifandi viðburðadagskrá sýningarinnar.

Viðburðinum verður streymt beint á Facebook-síðu Hafnarborgar (sjá spilarann hér fyrir neðan), vegna tímabundinnar lokunar safnsins af lýðheilsusjónarmiðum.

Skerpla er tónlistarhópur sem starfar innan Listaháskóla Íslands og var stofnaður haustið 2018. Skerpla rannsakar, skapar og flytur tónlist af tilraunakenndum toga með það að markmiði að víkka út hefðbundnar hugmyndir um tónlist. Berglind María Tómasdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands, leiðir Skerplu.

Nemendurnir sem taka þátt með Skerplu að þessu sinni eru Alvar Rosell Martin, Ana Luisa S. Diaz De Cossio, Freya Betzy Dinesen Simmons, Khetsin Chuchan og Robin Morabito.