Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – Júlía Mogensen

Laugardaginn 24. október kl. 14:30 slær Júlía Mogensen, sellóleikari, botninn í viðburðadagskrá sýningarinnar Borgarhljóðvistar í formi ensks lystigarðs eftir Davíð Brynjar Franzson, sem staðið hefur yfir í Hafnarborg frá því í haustbyrjun en sýningunni lýkur um helgina. Þá mun Júlía koma til með að flytja hluta sýningarinnar sem saminn var sérstaklega í tilefni uppsetningarinnar í Hafnarborg og inniheldur hljóðritanir úr nærumhverfi Júlíu úr Vesturbæ Reykjavíkur.

Viðburðinum verður streymt beint á Facebook-síðu Hafnarborgar (sjá spilarann hér fyrir neðan), vegna tímabundinnar lokunar safnsins af lýðheilsusjónarmiðum.

Júlía Mogensen er klassískt menntaður sellóleikari og reglulegur flytjandi nýrrar tónlistar, auk þess sem hún leggur nú stund á MA-nám í myndlist við Listaháskóla Íslands. Í yfir fimmtán ár hefur hún átt í fjölbreyttu samstarfi og leikið með breiðum hópi listamanna bæði hér heima og erlendis. Júlía lærði við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í London við Guildhall School of Music and Drama og síðar tveggja ára nám í Berlín. Hún var meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á árunum 2013 til 2019.

Sýningin er sett upp innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana, sem tileinkuð er samtímatónlist, en á síðari árum hefur safnið þanið form raðarinnar – og tónlistarinnar – til hins ýtrasta

Sýningin nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs, Tónlistarsjóðs og Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs.
Verkefnið var að hluta þróað við IRCAM og ZKM.