Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – Halla Steinunn Stefánsdóttir

Laugardaginn 17. október kl. 14:30 mun Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, leika inn í sýninguna Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs eftir Davíð Brynjar Franzson, sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Halla Steinunn er búsett í Malmö og mun koma til með að virkja sýninguna með hljóðfæraleik frá heimili sínu en Malmö er jafnframt til umfjöllunar í verkinu. Kvik innsetningin bregst við hljóðfæraleik Höllu Steinunnar svo til verður huglæg tenging á milli safnsins og Malmö.

Viðburðinum verður streymt beint á Facebook-síðu Hafnarborgar (sjá spilarann hér fyrir neðan), vegna tímabundinnar lokunar safnsins af lýðheilsusjónarmiðum.

Fiðluleikarinn, kúratorinn og tónskáldið Halla Steinunn Stefánsdóttir hefur skipað sér í fremstu röð innan snemm- og samtímatónlistar hérlendis. Hún hefur verið listrænn stjórnandi kammerhópsins Nordic Affect frá stofnun hans árið 2005. Nordic Affect hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Leik Höllu Steinunnar má heyra á plötum frá Carrier Records, Sono Luminus, Brilliant Classics, Smekkleysu, Mirjam Tally Label, Musmap og Deutsche Grammophon. Halla Steinunn er einnig með doktorsstöðu í listrannsóknum við Lundarháskóla.

Sýningin er sett upp innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana, sem tileinkuð er samtímatónlist, en á síðari árum hefur safnið þanið form raðarinnar – og tónlistarinnar – til hins ýtrasta

Sýningin nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs, Tónlistarsjóðs og Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs.
Verkefnið var að hluta þróað við IRCAM og ZKM.