Blómin og framtíðin – sýningarspjall

Sunnudaginn 8. nóvember kl. 14 munum við deila með ykkur upptöku af sýningarspjalli, sem tekið var upp á Zoom nýlega, þar sem nokkrir þátttakendur sýningarinnar Villiblómsins ræða eigin nálgun, sýninguna sjálfa og þær hugmyndir sem þar fá að blómstra.

Þátttakendur í spjallinu er listamennirnir Nína Óskarsdóttir, Justine McGrath, Eggert Pétursson og Thomas Pausz, auk sýningarstjóranna Becky Forsythe og Penelope Smart, sem leiða umræðuna. Þeir listamenn sem einnig eiga verk á sýningunni eru Arna Óttarsdóttir, Asinnajaq, Emily Critch, Jón Gunnar Árnason, Katrina Jane, Leisure og Rúna Þorkelsdóttir. Sýningin opnaði fyrr í haust en safnið hefur verið lokað gestum undanfarnar vikur vegna gildandi samkomutakmarkana.

Þá hefði sunnudagurinn verið síðasti sýningardagur Villiblómsins og gestum mun því miður ekki gefast tækifæri til að heimsækja sýninguna í safninu á ný en við vonum að hugmyndirnar megi berast lengra, eins og fræ í vindi, og spretti jafnvel upp á óvæntum stöðum í framtíðinni.

Hægt verður að nálgast spjallið, sem fer fram á ensku, hér fyrir neðan.