Fimmtudaginn 30. október kl. 20 bjóðum við ykkur velkomin á ljóðakvöld í tengslum við haustsýningu Hafnarborgar Algjörar skvísur. Þá munu sýningarstjórarnir Petra Hjartardóttir og Jasa Baka flytja ljóð eftir Jóhannes S. Kjarval, Hrefnu Sigurðardóttur og Gunnþórunni Sveinsdóttur, auk annarra. Af þessu tilefni mun Hulda Vilhjálmsdóttir einnig fara með eigin ljóð og Dýrfinna Benita Basalan flytur ljóð eftir skáld sem hafa haft áhrif á listsköpun hennar.
Ljóðakvöldið byggir á könnun sýningarinnar á mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist og varpar ljósi á það hvernig listin brýst fram í ljóði og myndum. Sýningin sjálf hverfist um ólíkar birtingarmyndir sætleikans, guðdómlegar og goðsagnakenndar kvenlegar erkitýpur og andahyggjuna sem lítur á (móður) náttúru sem síkvika veru. Þá eru þessar hugmyndir skoðaðar út frá því hvernig þær eiga við fólk, staði og hluti, einkum nú þegar segja má að kvenlegar erkitýpur séu að koma fram úr fylgsnum sínum og umbreyta skilningi okkar á sjálfsmynd og jafnvægi.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Berglind Ágústsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, Darsha Hewitt og Svava Skúladóttir, Dýrfinna Benita Basalan og Róska, Gunnhildur Hauksdóttir og Gunnþórunn Sveinsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir og Kíkó Korriró, Hulda Vilhjálmsdóttir og Jóhannes S. Kjarval, Veronica Brovall og Sóley Eiríksdóttir. Sýningarstjórar eru Jasa Baka og Petra Hjartardóttir.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.