Hádegistónleikar – Valgerður Guðnadóttir

Þriðjudaginn 2. maí kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika vetrarins í Hafnarborg en þá mun Valgerður Guðnadóttir, sópran, koma fram ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara og listrænum stjórnanda tónleikaraðarinnar. Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina „Söngleikir: Gullöldin“ en tónleikarnir marka jafnframt lok tuttugasta starfsárs hádegistónleikaraðarinnar.

Valgerður Guðnadóttir, sópran, útskrifaðist frá The Guildhall School of Music and Drama í London árið 2000 en áður hafði hún lokið 8. stigi í söng með láði frá Söngskólanum í Reykjavík. Valgerður hóf feril sinn sem María Magdalena í Jesus Christ Superstar í Verzlunarskóla Íslands. Í kjölfarið fór hún með hlutverk Dala-Völu í sjónvarpsleikritinu Þið munið hann Jörund í leikstjórn Óskars Jónassonar og Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Þá fór Valgerður með hlutverk Mömmu klikk í samnefndu leikriti eftir bók Gunnars Helgasonar og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímunnar. Hún lék hlutverk Maríu í Söngvaseið í Borgarleikhúsinu en fyrir það hlaut hún Grímuna sem söngvari ársins árið 2009. Á meðal óperuhlutverka Valgerðar má nefna Papagenu í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen, Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós og Bertu í Rakaranum frá Sevilla en fyrir það hlutverk hlaut hún tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2016.

Valgerður hefur komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis og haldið fjölda tónleika, s.s. ljóðatónleika, tangótónleika og jazztónleika. Hún söng á opnunartónleikum Hörpu árið 2011 og hefur komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo sem á Klassíkinni okkar, Vínartónleikum, Disney-tónleikum, James Bond-veislu og á jólatónleikum hljómsveitarinnar. Valgerður söng einsöng með Óperudraugunum í Hörpu, á jólatónleikum Kristjáns Jóhannssonar og með Frostrósum um árabil svo dæmi séu tekin. Hún söng jafnframt hlutverk Völvunnar í Völuspá eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson með Sinfonia Nord í Hofi, Akureyri, og í Færeyjum 2016 og 2018. Einnig hefur Valgerður léð Disney-persónum eins og Pocahontas og Litlu hafmeyjunni rödd sína og talsett ótal fleiri teiknimyndir. Valgerður var fjallkona Reykjavíkur árið 2014 og hlaut starfslaun listamanna árið 2017 til 12 mánuða.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.