Aðalúthlutun safnasjóðs 2025 – verkefni Hafnarborgar

Á Ársfundi höfuðsafna og safnaráðs, sem haldinn var þann 14. febrúar síðastliðinn, var tilkynnt um aðalúthlutun safnasjóðs árið 2025 en að þessu sinni hlaut Hafnarborg styrki til fjögurra verkefna.

Þá styrkir sjóðurinn þróun dvalarrýmis fyrir börn á efri hæð safnsins, undirbúningsvinnu vegna innleiðingar á nýjum Sarpi og sýningarsamstarf Hafnarborgar og Uppsala konstmuseum í tengslum við vinabæjarsamband Hafnarfjarðar og Uppsala. Sjóðurinn veitir jafnframt áframhaldandi styrk til fræðsluverkefnisins og viðburðaraðarinnar Á mínu máli, þar sem boðið er upp á listasmiðjur og leiðsagnir með fagfólki á erlendum tungumálum, en röðin hóf göngu sína árið 2023 með styrk úr safnasjóði.

Það var Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar innilega fyrir styrkina, sem stuðla að því að safnið fái enn betur þjónað samfélaginu og verið öflugur vettvangur lista og menningar í Hafnarfirði.