Kærleikskúlan í ár, Blóm og ást þurfa næringu, eftir Hildi Hákonardóttur er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en síðustu ár hefur kúlan jafnan selst upp áður en sölutímabilinu lýkur. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Um Kærleikskúluna í ár segir Hildur:
„Melablómið er eitt af okkar algengustu vorblómum. Samt tökum við sjaldan eftir þessu hvíta, litla blómi sem dreifir sér um gróðursnauða og hrjóstruga mela og hefur þjálfað sig í að glæða þá lífi og laða að skordýr sem svo hjálpa til að frjóvga önnur blóm sem kynnu að voga sér þangað. Með hógværð sinni minnir það okkur á að það þarf ekki stórar gjafir til að gleðja aðra. Bros og huggunarrík orð geta gefið meiri gleði.
Melablómið þiggur yl frá sólinni, vatn úr himnalindunum og steinefni úr grjótinu. Þó skartar það fjaðurflipóttum blöðum eins og fífillinn, konungur villiblómanna, kannski til að minna okkur á að það hefur líka sitt stolt. En ást þarfnast næringar rétt eins og blóm ef hún á að geta þrifist. Þá eru það gjarnan litlu hlutirnir sem skipta mestu máli. Ylur af snertingu handa, hvatningarorð úr lindum góðmennskunnar og hugvekjandi hjálpsemi. “
Hildur Hákonardóttir (f. 1938) hefur á löngum starfsferli tekið á málefnum samtíma síns, einkum umhverfis- og jafnréttismálum, og nýtt til þess fjölbreytta miðla. Hún lærði myndvefnað við Myndlista- og handíðaskólann 1964-68 og Listaskóla Edinborgar árið 1969 og starfaði sem skólastýra Myndlista- og handíðaskólans á árunum 1975-78. Hildur á að baki fjölda sýninga og hefur gefið út fjölbreytt ritverk. Þá hlaut yfirlitssýningin Rauður þráður í Listasafni Reykjavíkur Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2023 og Hildur hlaut einnig fálkaorðuna 2024 fyrir framlag sitt til myndlistar og störf í þágu kvennabaráttu.
Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 5. til 20. desember, á meðan birgðir endast.