Skapandi sumarstörf – viðburðir í Hafnarborg

Undanfarin sumur hafa ungmenni á aldrinum 18-25 ára unnið að fjölbreyttum listviðburðum í Hafnarfirði undir merkjum Skapandi sumarstarfa. Í ár miðla þrír af sjö hópum eða einstaklingum sínum verkefnum með sýningum og uppákomum í Hafnarborg í sumar.

25. júlí – 5. ágúst:
Minningar um Sædýrasafnið
Rán Sigurjónsdóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur fræðandi sýningu um Sædýrasafnið í Hafnarfirði, sem starfaði frá árinu 1969 til ársins 1987. Hinar ýmsu framandi dýrategundir voru þar til sýnis en meðal þeirra eftirminnilegustu má nefna ljón, apa og ísbirni. Safnið var vel sótt og þó að Sædýrasafninu hafi verið lokað á síðustu öld lifir minning þess áfram. Á sýningunni má sjá teikningar, vídeóverk og bókverk sem byggja á minningum frá þessum tíma.

Sýningin er í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 12-17.

8. ágúst kl. 17:30:
Dansmyndbandsverk og kynning
Logi Guðmundsson, ballettdansari, sem stundar nám við hinn heimsfræga San Fransisco Ballet School, mun sýna nýtt dansmyndbandsverk sem tekið er upp í hafnfirskri náttúru. Logi heldur einnig kynningu á sinni einstöku sögu sem fyrsti ballettdansarinn frá Íslandi sem stundar nám við skólann.

Verkið verður sýnt í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins fimmtudaginn 8. ágúst kl. 17:30.

12. ágúst kl. 17:30:
Sviðslistahópurinn Þríradda
Íris Ásmundar, dansari, Benedikt Gylfason, tónlistarmaður og dansari, og Hanna Huld Hafþórsdóttir, kvikmyndagerðarkona, mynda sviðslistahópinn Þríradda. Þau hafa unnið að sviðsverki sem sameinar tónlist, kvikmyndagerð og danslist og byggir á hugarheimi persóna sem tilheyra klassískri sinfóníu. Verkið snertir á hugmyndum og tilfinningum líkt og egói, óöryggi, fullkomnun og mikilmennsku. Línur raunveruleika og hliðarsjálfs verða óskýrar og þau kanna hvernig hugmyndir um eigið sjálf sveiflast á milli þessara tveggja heima.

Uppákoman verður í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins mánudaginn 12. ágúst kl. 17:30.