Kærleikskúlan 2023 – fáanleg í safnbúð Hafnarborgar

Kærleikskúlan í ár, HEIMUR, eftir Guðjón Ketilsson er nú fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Kúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi en síðustu ár hefur kúlan jafnan selst upp áður en sölutímabilinu lýkur. Allur ágóði af sölunni rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hjúpar að þessu sinni Kærleikskúluna. Þunn og viðkvæm glerkúlan er undirlag og sögusvið hins mannlega sannleika, harms og áreitis sem kallar á sammannlegan sáttmála um að halda utan um mennskuna og gildi hennar gagnvart fáum en þó valdamiklum öflum. Mannréttindayfirlýsingin er rituð með bláum lit sem er ætlað að minna á jarðkúluna okkar, en vatn nemur 70% af heildaryfirborði hennar, sem er rétt rúmlega heildarmagn vatns í mannslíkamanum.

Verður kúla þessi til sem listgripur þegar 75 ár eru liðin frá því að sáttmálinn var staðfestur í því markmiði að stuðla að friðsamlegum samskiptum þjóða. Yfirlýsingin kveður á um mannréttindi sem allir eiga tilkall til óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, skoðunum, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum. Sköpun Kærleikskúlunnar á sér því uppsprettu í mannlegri samhygð, náungakærleika og von um friðsamlegri samskipti þjóða.

Guðjón Ketilsson (f. 1956) er einn fremsti og afkastamesti listamaður landsins en hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2020. Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar, þar á meðal yfirlitssýninguna Jæja á Kjarvalsstöðum árið 2022, auk þess að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim. Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi og í opinberu rými hérlendis og á Norðurlöndunum. Guðjón vinnur að jöfnu að gerð teikninga og skúlptúra þar sem handverkið er í forgrunni. Verk hans rýna í mannlegt eðli, líkamann og hversdagslegt umhverfi þar sem kunnuglegir hlutir, form, orð eða ritaður texti eru dregin fram í nýju og gjarnan óvæntu samhengi.

Kærleikskúlan verður til sölu í safnbúð Hafnarborgar frá 7. til 21. desember, á meðan birgðir endast.