Stórafmæli – 40 ár liðin frá stofnun Hafnarborgar

Í dag eru 40 ár liðin síðan hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon afhentu Hafnarfjarðarbæ gjafabréf, dagsett 1. júní 1983, að húseign þeirra við Strandgötu 34 ásamt veglegu listaverkasafni sem myndaði grunninn að Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.

Höfðu þau hjón rekið Hafnarfjarðar Apótek hér í húsinu um áratuga skeið, auk þess sem þau höfðu safnað fjölda listaverka yfir ævina, sem þau vildu að samfélagið myndi njóta, en frá stofnun hefur hlutverk Hafnarborgar verið að efla alhliða lista- og menningarlíf í Hafnarfirði, svo sem með rekstri salarkynna fyrir listsýningar, tónleika og aðra skylda starfsemi.

Þá vinnur starfsfólk Hafnarborgar nú að uppsetningu nýrra sýninga í safninu og því bjóðum við ykkur að ganga í bæinn annað kvöld, föstudag, milli kl. 18 og 21, þar sem gestir munu fá að skyggnast á bak við tjöldin í safninu og sjá hvernig sýning verður til.

Boðið verður upp á afmælisköku, kaffi og létta drykki.

Verið hjartanlega velkomin.