Listráð Hafnarborgar hefur valið Landslag fyrir útvalda, í sýningarstjórn Evu Línar Vilhjálmsdóttur og Oddu Júlíu Snorradóttur, sem haustsýningu ársins 2023. Í tillögu sinni fjalla sýningarstjórarnir um hvernig það er að búa í heimi yfirvofandi breytinga og í samfélagi sem kallar statt og stöðugt eftir því að einstaklingar axli aukna ábyrgð á hnattrænum vandamálum. Þá sé þetta í raun kapítalísk tálsýn sem hvetur okkur til að smíða einstaka sjálfsmynd, frábrugðna öllum öðrum.
Þegar tálsýnin hrynur svo í hugum okkar eins og spilaborg, liggur hún kylliflöt og loftlaus sem innantóm blekking. Okkur fallast hendur gagnvart máttleysinu og við flýjum – en hvert? Það er ekki lengur „hot“ að fara í heimsreisu, Evrópa er eiginlega eins og að fara út í bakgarð og Tene er bara fyrir gamlingja. Lífsflóttinn sem slíkur hefur þó ætíð verið órofa tengdur við það að leita á nýjar slóðir í gegnum listsköpun en nú þurfum við aftur að leita lengra en nokkurn tímann fyrr.
Loks má greina ákveðið myndmál og fagurferði sem fæst við hálfvanmáttugar tilraunir okkar til þess að hafa áhrif á heildarmyndina en þátttakendur sýningarinnar eiga það allir sameiginlegt að viðurkenna þessa tálsýn og leita mismunandi leiða til að flýja þá tilfinningu um máttleysi sem fylgir. Sýningin viðheldur þannig togstreitunni sem felst í flóttanum og upplifun fólks af samtímanum, enda þótt hún veiti enga lausn aðra en að leyfa gestum að tapa sér um stund í landslagi fyrir útvalda.
Eva Lín Vilhjálmsdóttir útskrifaðist með BA í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2019 og MA í listheimspeki frá King’s College í London árið 2022.
Odda Júlía Snorradóttir útskrifaðist með BA í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2021 og leggur nú stund á meistaranám í sýningargerð við Háskóla Íslands.
Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.
Þessi sýning verður sú þrettánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.