Á síðastliðnu ári bættist vegleg gjöf við safneign Hafnarborgar þegar safninu var fært úrval voldugra skúlptúra úr steinsteypu eftir hafnfirsku listakonuna Sóleyju Eiríksdóttur (1957–1994). Bætast verkin við það safn verka sem Hafnarborg varðveitir þegar eftir Sóleyju og spanna knappan en kraftmikinn feril listakonunnar.
Verkin afhenti Brynja Jónsdóttir, dóttir Sóleyjar og Jóns Axels Björnssonar, myndlistarmanns, safninu formlega síðasta haust en laugardaginn 14. janúar næstkomandi stendur til að opna sýningu á verkum listakonunnar í aðalsal Hafnarborgar.
Á sýningunni verða meðal annars sýnd þau verk sem nú hafa bæst við safneign Hafnarborgar, auk fleiri verka í eigu Hafnarborgar, safna og einkasafnara. Leirinn var gegnumgangandi efni í verkum listakonunnar og vann hún fyrst um sinn hefðbundna leirmuni sem telja má til nytjalistar. Síðar á ferlinum öðlast teikningar og myndefni hennar svo sjálfstætt líf í stærri þrívíðum verkum.
Sýningin ber titilinn Gletta og sýningarstjórar eru Aldís Arnardóttir og Aðalheiður Valgeirsdóttir.
Sóley Eiríksdóttir lagði stund á nám við málmiðnaðardeild Iðnskólans í Hafnarfirði í eitt ár eftir nám við Flensborgarskólann. Árið 1975 hóf hún svo nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fyrst við kennaradeild en hún útskrifaðist síðan frá leirlistadeild skólans árið 1981. Sóley sýndi verk sín víða á stuttum ferli, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, Gallerí Langbrók og Listasafni ASÍ, auk þess sem hún hélt sýningar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Lúxemburg, Kanada og Þýskalandi.