Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn er dagskrá ætluð eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.
Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt með spjalli við sérfræðinga safnsins. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá kl. 14 einn miðvikudag í mánuði yfir vetrartímann. Hægt er að skrá sig í síma 585 5790 eða með því að senda póst á netfangið [email protected]. Aðgangur er ókeypis
Dagskrá vorannar
16. mars kl. 14
Ljósmyndahátíð – Hallgerður Hallgrímsdóttir
Leiðsögn um sýninguna Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur. Hallgerður notar ljósmyndamiðilinn sem tæki til að beina sjónum sínum að ljósmyndasögunni og mismunandi tækni hennar. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð 2022.
13. apríl kl. 14
Verk úr safneign
Í safneign Hafnarborgar eru nú tæplega 1600 verk, unnin með fjölbreyttum aðferðum. Þar má meðal annars finna málverk, teikningar, þrívíð verk og vídeóverk, auk þess sem safnið hefur umsjón með útilistaverkum Hafnarfjarðar. Fjallað verður ítarlega um valin verk úr safneign Hafnarborgar.
11. maí kl. 14
HönnunarMars – Tinna Gunnarsdóttir
Leiðsögn um sýningu Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi. Verkin á sýningunni eru hluti af yfirstandandi doktorsverkefni Tinnu sem byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði, þar sem hún kannar tengsl manns og landslags. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2022.