Jólaóróinn Þvörusleikir er nú fáanlegur í safnbúð Hafnarborgar. Hönnunarteymið Arnar&Arnar hannaði óróann og Kristín Svava Tómasdóttir samdi kvæði um kappann. Þvörusleikir er síðastur í jólaóróaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem telur alls sextán óróa. Þá hafa jólasveinarnir þrettán verið færðir í stál ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum.
Margir færustu hönnuðir og fremstu skáld landsins hafa lagt Styrktarfélaginu lið og gefið vinnu sína við að skapa jólaóróana og semja kvæði með óróunum. Þá var Kertasníkir fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003.
Hafnarborg hefur verið meðal söluaðila jólaóróans og Kærleikskúlunnar um árabil en vegna tafa sem urðu í framleiðslu- og sendingarferli Kærleikskúlunnar seinkar sölu hennar um nokkra daga. Sölutímabil Kærleikskúlunnar verður því frá 9. desember til og með 23. desember. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar og jólaóróans rennur óskiptur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.
Jólaóróinn er framleiddur í takmörkuðu upplagi en sölutímabil hans er frá 2. desember til og með 16. desember.