Hafnarborg telur niður dagana til jóla með því að sýna jóladagatalið Hvar er Völundur? milli kl. 16 og 17 alla opnunardaga safnsins í desember fram að jólum.
Hvar er Völundur? var framleitt af RÚV árið 1996 og er löngu orðið hluti af jólahefðinni. Í dagatalinu leita þeir Felix og Gunni að smiðnum Völundi en hann er sá sem smíðar góðu jólagjafirnar. Við leitina lenda félagarnir í óvæntum ævintýrum er þeir þræða hvert völundarhúsið á fætur öðru og hitta fyrir margvíslegustu þorpara.
Höfundur dagatalsins er listamaðurinn Þorvaldur Þorsteinsson en yfirlitssýning á verkum hans stendur nú yfir í safninu.
Börn og fjölskyldur eru sérstaklega velkomin en hver þáttur verður sýndur í endurtekningu milli kl. 16 og 17 dag hvern. Á þriðjudögum er safnið lokað og verða því tveir þættir sýndir á miðvikudögum. Aðgangur að safninu er ókeypis, eins og alltaf.