Myndin af Maríu – taktu þátt í að endurskapa listaverk

Heitirðu María? Býrðu í Hafnarfirði? Hefurðu áhuga á að vera með í listaverki?

Um þessar mundir vinnur Hafnarborg að uppsetningu yfirlitssýningarinnar, Lengi skal manninn reyna, þar sem sýnd verða verk eftir listamanninn Þorvald Þorsteinsson (1960-2013). Á sýningunni stendur til að endurskapa eitt verka listamannsins, Myndina af Maríu, sem Þorvaldur sýndi fyrst á sýningu í Listasafninu á Akureyri árið 1996. Þá mun sýningin í Hafnarborg opna á afmælisdegi Þorvaldar, 7. nóvember næstkomandi.

Myndin af Maríu er þátttökulistaverk sem fólst í því að listamaðurinn óskaði eftir að fá myndir að láni frá þeim sem báru nafnið María og bjuggu á Akureyri. Myndirnar sýndi hann svo allar saman í einu rými safnsins, við milda lýsingu, sveipaðar helgiblæ. Vísaði hann þar til helgra Maríumynda og tengdi saman hversdagsleikann og heilagleikann í verki sínu.

Nú leitar Hafnarborg til María, sem búsettar eru í Hafnarfirði, um að lána safninu myndir af sér til að sýna á væntanlegri yfirlitssýningu á verkum listamannsins. Myndin getur verið passamynd eða stærri ljósmynd, sjálfsmynd tekin á síma, mynd úr fjölskyldualbúminu, teikning eða málverk, ef slíkt er til, andlitsmynd eða heilmynd, allt eftir smekk. Þá skiptir stærð eða aldur myndarinnar ekki máli, heldur er leitast eftir því að fjölbreytni í formi og útliti verði sem mest.

Myndinni er ýmist hægt að koma til skila í afgreiðslu Hafnarborgar á opnunartíma safnsins eða í tölvupósti á netfangið [email protected] en gæta þarf að myndinni fylgi fullt nafn og símanúmer þátttakanda. Tekið verður við myndum til 10. október. Að sýningu lokinni munu þátttakendur svo geta nálgast mynd sína í afgreiðslu safnsins.

Ef þú hefur áhuga en eitthvað er óljóst, endilega hafðu samband í síma 585 5790.