Myndasögusýningin Terra Incognita eða Óþekkt svæði býður gestum að kynnast verkum fjögurra listamanna frá Slóvakíu og Íslandi en það er slóvakíska teymið Free Feeling sem stendur fyrir sýningunni. Myndasögur eru enda þess eðlis að þær má skilja þvert á þjóðerni og tungumál, þar sem þær koma hugsun mannsins, jafnt hinum innri hugarheimi höfundarins og ytri áhrifum, til skila á myndrænan hátt.
Á síðasta ári voru fimm sýningar á verkum þátttakenda haldnar í Slóvakíu við ýmis tækifæri, svo sem á menningarviðburðum, hátíðum og listasmiðjum. Nú gefst íslenskum áhorfendum svo tækifæri til að sjá sýninguna og njóta verka eftir listamennina fjóra sem eiga verk á sýningunni: Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Hugleik Dagsson, ásamt Fero Jablonovský og Bobo Pernecký frá Slóvakíu.
Sýningin stendur yfir í Apótekssal Hafnarborgar, á jarðhæð safnsins, og er aðgengileg gestum á almennum opnunartíma safnsins.