Sönghátíð í Hafnarborg hlaut þann 17. apríl Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 sem tónlistarviðburður ársins (hátíðir), í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Sönghátíð fór fram í fjórða sinn dagana 2. til 12. júlí 2020.
Þá var boðið upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk tónlistarnámskeiða fyrir börn og fullorðna, en það vildi svo vel til að um mitt sumarið, þegar hátíðin er venjulega haldin, hafði samkomutakmörkunum verið létt nægilega til þess að dagskrá hátíðarinnar gæti farið fram með óskertum hætti.
Við í Hafnarborg erum afar stolt af þessari viðurkenningu og óskum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með verðlaunin, auk þess sem við þökkum þeim kærlega fyrir sitt göfuga starf í þágu menningar- og tónlistarlífs Hafnarfjarðarbæjar á liðnum árum.
Sönghátíð í Hafnarborg mun svo fara fram í fimmta sinn 19. júní til 4. júlí næstkomandi.