Þrjú þúsund – stuttmynd eftir Asinnajaq

Í tengslum við sýninguna Villiblómið er það okkur mikil ánægja að deila með ykkur stuttmyndinni Þrjú þúsund (e. Three Thousand) eftir listamanninn Asinnajaq, sem spila má hér fyrir neðan, auk þess sem hlýða má á stutta kynningu listamannsins sjálfs á myndinni fyrir ofan. Í myndinni hefur Asinnajaq nýtt sér sögulegt myndefni úr safni The National Film Board of Canada í bland við eigin myndheim, þar sem hún setur nútíð, fortíð og framtíð fólks síns fram í nýju, töfrandi ljósi. Þá kafar stuttmyndin ofan í flókna sögu og segir hana upp á nýtt með von, fegurð og nýja möguleika að leiðarljósi.

Asinnajaq ᐊᓯᓐᓇᐃᔭᖅer listamaður frá Inukjuak, Nunavik. Nýjasta kvikmynd hennar, Three Thousand (2017), blandar saman gömlu myndefni og teiknimyndagerð, þar sem hún dregur upp mynd af heimabæ sínum Inukjuak í framtíðinni. Myndin hlaut verðlaun sem besta tilraunakennda myndin á imagineNATIVE Film + Media Arts Festival 2017 og var tilnefnd til Canadian Screen Awards 2018 sem besta stutta heimildarmyndin. Hún hefur sýnt verk sín í Kanada og víðar og hlotið fjölda viðurkenninga, svo sem Technicolour Clyde Gilmour Award frá Toronto Film Critics Association. Hún er meðstofnandi Tillitarniit-hátíðarinnar, sem er tileinkuð menningu Inúíta í Montréal. Asinnajaq er ein fjögurra sýningarstjóra sem starfa nú að vígslusýningu nýrrar stofnunar um myndlist Inúíta, Inuit Art Center, í Winnipeg, Kanada, sem opnar nú í ár.

Verk Asinnajaq Hvert sem þú ferð elti ég (e. Where You Go, I Follow, 2020) er sýnt í fyrsta sinn á sýningunni Villiblóminu.


Three Thousand (2017):