Villiblómið – „Engið tætt í sundur“

D’Arcy Wilson les hér texta sinn „Engið tætt í sundur“ (e. „Dismantling the Meadow“), sem hefst á hugmyndum 19. aldar um mál blómanna (e. The Language of Flowers) og birtist í samnefndri sýningarskrá sem gefin var út í tengslum við Villiblómið, haustsýningu Hafnarborgar 2020. Þar veltir hún fyrir sér þeirri merkingu, tilfinningum og menningu sem vestræn hugmyndafræði tengir við plöntur og jurtaríkið, er hún leggur leið sína um Villiblómið, staldrar við, hyggur að og reynir að ráða úr einstökum verkum listamannanna. Þá leiða athuganir, minningar og reynsla hennar hana inn á slóðir úthverfanna, þar sem finna má blómabeð og flókalundi ólíkra plantna, líkt og rhododendron-runnana og kanadarósina, sem vaxa við heimili hennar á austurströnd Kanada.

D’Arcy Wilson vinnur þvert á miðla en í starfi sínu hugar hún að birtingarmyndum náttúrunnar í vestrænu samhengi, þar sem hún harmar afleiðingar nýlendustefnunnar á umhverfið. Verk hennar hafa verið sýnd víða í Kanada, nú síðast í Dalhousie University Art Gallery í Halifax, The Rooms Art Gallery í St. John’s og Owens Art Gallery í Sackville, auk þess sem hún tók þátt í M:ST í Flotilla og Bonavista-tvíæringnum. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Sobey Art Award nú í ár. Wilson útskrifaðist með MFA-gráðu frá University of Calgary árið 2008. Hún gegnir nú stöðu aðstoðarprófessors við myndlistardeild Grenfell Campus, Memorial University of Newfoundland.

Villiblómið er samsýning listamanna frá Kanada og Íslandi, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Sýningarskráin, sem texti Ingu Bjarkar birtist í, er jafnframt fáanleg í safnbúð Hafnarborgar. Sýningin mun standa yfir til 8. nóvember næstkomandi en safnið er lokað tímabundið af lýðheilsusjónarmiðum.